Foxx er við dauðans dyr

Leikarinn þeldökki Jamie Foxx mun taka að sér aðalhlutverk kvikmyndarinnar On A Pale Horse, sem byggð er á samnefndri bók eftir Piers Anthony. Fjallar hún um það hvernig ungur maður ætlar sér að taka eigið líf. Dauðinn kemur til þess að ná í hann, en kemur reyndar nokkrum augnablikum of snemma. Ungi maðurinn sér sér þá leik á borði, og setur kúlu beint í hausinn á Dauðanum. Eftir að hafa drepið Dauðann (?) kemst hann að því sér til hrellingar að hann neyðist til þess að taka að sér hlutverk hans til þess að heimurinn geti gengið eðlilega. Eftir að hann fer smám saman að venjast sínu nýja hlutverki í lífinu (dauðanum?), dregst hann inn í djöfullegt plott Satans sjálfs. Handritshöfundurinn Paul Guay skrifar handrit myndarinnar, og það er Disney sem mun framleiða myndina. Enginn leikstjóri hefur enn verið ráðinn.