Fólk í leit að 15 sekúndna frægð

Simon Cowell hefur komið á fót hverjum raunveruleikaþættinum á fætur öðrum; Idol, America’s Got Talent, X-Faxtor og American Inventor. En það er ekki nóg því nú ætlar hann að framleiða kvikmynd sem fjallar um tíu keppendur í raunveruleikaþætti.

Kvikmyndin mun heita Star Struck og sagan er sögð í gegnum þessa tíu keppendur. Cowell segir myndina eiga að vera í ætt við Rocky nema hvað að hnefaleikunum verður skipt út fyrir tónlist. Til að ljá myndinni raunverulegri blæ verða aðalleikararnir valdir út í almennum leik- og söngprufum, líkt og gengur og gerist í alvöru raunveruleikaþáttum. Áætlað er að myndin komi út næsta sumar.