Fjölskyldan skiptir öllu í Fast and Furious

Í september sl. birti bandaríski leikarinn Vin Diesel nýja ljósmynd úr bílatryllinum Fast 8, sem var að hluta tekin  upp hér á Íslandi, og sagði um leið að fyrsta stikla kæmi sunnudaginn 11. desember, en sá dagur er nú handan við hornið.

Nýtt sýnishorn, eða kynning, hefur nú verið birt í aðdraganda frumsýningar stiklunnar, þar sem aðalleikarar myndarinnar ræða hvað það sé sem geri Fast and Furious myndirnar sérstakar, og brot úr öllum hinum sjö myndunum eru sýnd. Þá erum við minnt á það örstutt hvaða illmenni hetjurnar eiga við að etja í myndinni, en aðal þorparinn er Cipher, sem Charlize Theron leikur.

Eins og fram kemur í myndbandinu þá snýst Fast 8 um eitt og aðeins eitt- samheldni fjölskyldunnar.

fast

Kynningarmyndbandið birtist fyrst á Twitter, en þar segir að stiklan verði birt við hátíðlega athöfn í beinni útsendingu frá New York á sunnudaginn kemur, með öllum aðallleikurunum viðstöddum.

Í myndbandinu, sem er tvær og hálf mínúta, sjáum við þau Vin Diesel (Dominic Toretto), Dwayne Johnson (Luke Hobbs), Michelle Rodriguez (Letty Torreto), Tyrese Gibson (Roman Pearce) og Ludacris (Tej Parker), ásamt örstuttu broti af hinu svokallaða „Uppvakninga bíla droppi“ ( Zombie car drop ) þar sem bílar fara fram af bílageymsluhúsi í Cleveland. Auk þess sjáum við stutt atriði sem tekið var upp hér á Íslandi.

Enn er söguþráður myndarinnar á huldu, en sagt er að stór hluti fjörsins fari fram í New York. Myndin er söguleg þar sem hún er fyrsta stóra Hollywood kvikmyndin sem tekin er upp á Kúbu í 50 ár. Talið er að atriðið sem gerist á Kúbu kynni til leiks kúbanska fjölskyldu Dominic Toretto.

Aðrir helstu leikarar í myndinni eru Jason Statham, Kurt Russell, Lucas Black og Jordana Brewster auk nýliðanna Scott Eastwood, Charlize Theron og Kristofer Hivju.

Myndin kemur í bíó 14. apríl 2017.