Fimmta Skjaldborgin á Patreksfirði

Heimildamyndahátíðin Skjaldborg verður haldin í fimmta sinn um Hvítasunnuhelgina 10.-12. júní nk. Yfir 20 nýjar íslenskar heimildamyndir verða frumsýndar á hátíðinni og spennandi verkefni í vinnslu verða kynnt, að því er fram kemur í tilkynningu frá Skjaldborg. Heiðurgestur Skjaldborgar í ár er Ómar Ragnarsson en stiklur úr áður óbirtum Kárahnjúkamyndum Ómars verða m.a. frumsýndar á hátíðinni.

Á meðal mynda sem frumsýndar verða eru Bakka-Baldur eftir leikstjórann Þorfinn Guðnason, Land míns föður eftir Olaf de Fleur, Ge9n eftir Hauk Má Helgason, Rangsælis eftir Ragnheiði Gestsdóttur og Húdas Húdas eftir Frosta Jón Runólfsson. Halldór Halldórsson kynnir verk í vinnslu, HKL: Anti American Wins Nobel Prize, heimildamynd um pólitíkina í lífi Halldórs Laxness.

„Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er dáðasti tengdasonur Patreksfjarðar, Ómar Ragnarsson. Ómar þekkja allir sem skemmtikraft og fjölmiðlamann en Ómar er ekki síður frumkvöðull í íslenskri heimildamyndagerð. Hann fagnar um þessar mundir 40 ára ferli sem heimildamyndagerðarmaður en mynd hans Hamarinn sem hæst við himinn ber sem fjallar um Látrabjarg við Patreksfjörð var frumsýnd á RÚV árið 1971. Síðan þá hefur Ómar verið afkastamikill í dagskrár- og heimildamyndagerð en þegar nafn hans er slegið upp í safnadeild RÚV er hann skráður fyrir rúmlega 1200 titlum,“ segir í tilkynningunni frá hátíðinni.

Laugardagskvöld hátíðarinnar í ár verður helgað Ómari Ragnarssyni en þá munu Ómar og útvarpsmaðurinn Andri Freyr rekja feril Ómars. Áhorfendum gefst tækifæri til að sjá brot úr bæði þekktum og minna þekktum verkum Ómars og fá þannig heildarsýn yfir einstakan feril hans. Einn af hápunktum þeirrar dagskrár verður sýning á áður óbirtu efni sem Ómar tók úr Örkinni svokölluðu. Örkin er bátur sem Ómar lét ferja upp á hálendið til þess að mynda landslagið sem sökkt var fyrir uppistöðulón Kárahnjúka en Ómar er með tvær stórar myndir í bígerð um það efni.

Nánari upplýsingar um hátíðina, dagskrána og efnisatriði einstakra mynda er að finna á heimasíða hátíðarinnar: www.skjaldborg.com og á Facebook síðu hátíðarinnar.