Ferris Bueller snýr aftur

Lengi hefur fólk beðið eftir að sjá Ferris Bueller á ný og á tímapunkti var jafnvel talað um að framhald væri í bígerð. Matthew Broderick neitaði hinsvegar þeim orðrómum árið 2008 og sagðist vera of gamall í að endurtaka hlutverk unga vandræðagemlingsins.

Nú hefur hinsvegar óvænt auglýsing verið birt á vefnum þar sem Broderick nánast endurtekur setningu úr Ferris Bueller’s Day Off. Stef myndarinnar fylgir með dagsetningunni 5 febrúar 2012, en það er dagurinn sem úrslitaleikur Ameríska fótboltans fer fram.

CHU-cka-chu-CKAAAAHHHH…

Hvorki titill kitlunnar né notendanafn þess sem skellti henni á vefinn gefa til kynna fyrir hvað hún er að auglýsa, en eitt er þó víst: Ferris Bueller er mættur á ný.

Eins og allir vita þá er stærsta auglýsingarhlé ársins í hálfleik úrslitaleiksins og eru fótboltaaðdáendur og kvikmyndaaðdáendur límdir við skjáinn þá til að sjá sniðugustu auglýsingarnar, nýjar stiklur fyrir stórmyndir og hið góðkunna Half-Time Show.

Margir eru byrjaðir að tala um hvort þetta sé ávísun á framhaldið sem allir hafa beðið eftir, en líklegast er þetta bara auglýsing þar sem Matthew Broderick endurtekur hlutverk Buellers og langar að selja þér eitthvað (ég giska að það sé Ferrari).

Ég skal þó fúslega viðurkenna að ég get ekki beðið eftir að sjá auglýsinguna sjálfa og það ætti ekki að vera erfitt fyrir sjarmatröll á borð við Bueller að selja fólki eitthvað. Þetta gæti jafnvel toppað endurkomu Wooderson Hvað teljið þið að sé í gangi?