Enn eitt steraskrímslið úr bandarísku fjölbragðaglímunni mun sýna og sanna gríðarlega leikhæfileika sína á næstunni. Kappinn ber glímuheitið Triple H, en heitir í raun Paul Levesque. Hann mun fara með aðalhlutverk myndarinnar Jornada Del Muerte, eða Journey Of Death. Myndin mun gerast í suðvesturríkjum Bandaríkjanna, og fjallar um mótorhjólagengi, dóp og svikinn heiður. Handrit myndarinnar er skrifað af engum öðrum en John Milius, manninum sem leikstýrði megasnilldinni Conan: The Barbarian, og skrifaði m.a. handritið að Apocalypse Now.

