Bandaríski leikarinn Tom Selleck er í dag þekktastur fyrir leik sinn í lögguþáttunum Blue Bloods, en hér áður fyrr gerði hann garðinn frægan sem einkaspæjarinn Magnum P.I í samnefndum sjónvarpsþáttum, og svo þar á eftir lék hann m.a. í mjög vinsælli mynd sem heitir Three Man and a Baby, sem leikstýrt var af engum öðrum en Leonard Nimoy ( sem lék Spock í Star Trek í gamla daga ).
Ásamt Selleck léku tveir aðrir mjög þekktir leikarar á þeim tíma í myndinni, annar var Ted Danson, sem sló í gegn í sjónvarpsþáttunum Staupasteini og leikur nú í CSI þáttunum bandarísku, og hinn var Steve Guttenberg, sem hefur verið minna áberandi en hinir tveir nú í seinni tíð.
Three Men and a Baby, sem var frumsýnd árið 1987, fjallar um þrjá piparsveina sem lenda í því að þurfa að passa barn fyrir kærustu eins þeirra. Myndin var endurgerð á vinsælli franskri mynd.
Myndin sló í gegn og þénaði meira en 160 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum.
Framhaldsmynd kom nokkrum árum síðar, Three Men and a Little Lady, en síðan þá hefur ekkert frést af mönnunum þremur, né litlu stúlkunni sem þeir pössuðu.
Samkvæmt Cinemablend vefsíðunni þá hefur verið rætt um að gera framhald á myndinni í mörg ár sem myndi fjalla um mennina þrjá og brúður. Ef Mary, stúlkan, var barn árið 1987, þá passar að hún er á giftingaraldri núna.
Tom Selleck var gestur í spjallþætti á CBS sjónvarpsstöðinni í síðustu viku og var þá spurður um möguleikann á því að þessi mynd yrði gerð.
„Ég heyrði að það væri svoleiðis, svo að já,“ sagði Selleck þegar hann var spurður um Three Men and a Bride kvikmyndina. „Ég hef talað við Ted og Steve Guttenberg, og við erum allir meira en til í að snúa aftur ef það er einhver góð hugmynd í gangi. Ég held að þetta sé góð hugmynd.“
Það hljómar því eins og Selleck væri til í að gera myndina og Danson og Guttenberg sömuleiðis.
Entertainment Weekly tímaritið kannaði málið frekar, og fékk þau svör hjá Disney að myndin „væri enn í þróun á frumstigi.“
En á meðan við bíðum þá er hér atriði úr Three Men and a Baby: