Hasarmyndin Fast 8 verður að hluta til tekin upp á Akranesi í vor. Þetta kemur fram á Vísi. Áður höfðu sjónvarpsþættirnir Sense 8 verið að hluta teknir upp þar í bæ.
Gert er ráð fyrir að um 80 bílar verði fluttir til landsins fyrir tökurnar, að því er Skessuhorn greinir frá. Tökur munu fara fram við bryggjuna og mun Sementsverksmiðjan væntanlega koma við sögu.
Við á Kvikmyndir.is greindum frá því í byrjun janúar að til greina kæmi að taka upp hluta myndarinnar á Íslandi en þá var myndin kölluð Furious 8.
Frumsýning Fast 8 vestanhafs er fyrirhuguð 17. apríl á næsta ári.