Spennumyndin The Fast and Furious 7, sem Paul Walker leikur í en er enn ófullgerð, mun halda sínu striki, þrátt fyrir sviplegt fráfall Walker í gær.
The Hollywood Reporter segir að búið sé að fresta framleiðslu myndarinnar, en leikarar voru væntanlegir á tökustað myndarinnar í Atlanta í Bandaríkjunum í dag, sunnudaginn 1. desember, eftir að hafa tekið sér frí yfir Þakkargjörðarhátíðina.
Tökum hefur verið frestað fram á mánudag eða þriðjudag.
Tökur höfðu gengið vel, en tökulið og leikarar áttu að fara til Abu Dhabi í janúar, samkvæmt heimildum The Hollywood Reporter.
Leikstjórinn James Wan og ráðamenn í Unversal kvikmyndaverinu áttu fund nú í morgun til að ræða framtíð verkefnisins, hvernig ætti að breyta handritinu og hvernig væri best að halda áfram, með það að leiðarljósi að halda minningu Walker sem hæst á lofti.
Walker, sem lék Brian O´Conner í þessari vinsælu kvikmyndaseríu, lést í bílslysi í gær, laugardag, ásamt ökumanni bílsins sem þeir voru í, Roger Rodas.
Walker var 40 ára gamall.