Fallon og Brosnan heyja einvígi í Bond-tölvuleik

Fyrrum James Bond-leikarinn Pierce Brosnan var í viðtali hjá Jimmy Fallon á dögunum. Í viðtalinu vildi Fallon ólmur koma því áleiðis að uppáhalds tölvuleikur hans sem unglingur var Nintendo-leikurinn GoldenEye 007 sem var gerður eftir samnefndri mynd með Brosnan í aðalhlutverki.

Leikurinn, sem kom út árið 1997, náði gríðarlegum vinsældum á sínum tíma og er af mörgum talinn einn besti Nintendo-leikur sem gerður hefur verið.

Pierce-Brosnan

Fallon lét ekki duga að nefna áðdáun sína og skoraði Brosnan á hólm í leiknum sívinsæla. Brosnan lét slag standa og tók áskoruninni eins og herramaður og má sjá einvígið myndbandinu hér að neðan.

Brosnan sést næst á hvíta tjaldinu í njósnatryllinum The November Man, sem verður frumsýnd þann 27. ágúst. Myndin fjallar um fyrrum CIA leyniþjónustumann sem er fenginn aftur til starfa til að sinna mjög persónulegu verkefni en mótherji hans reynist vera fyrrum nemandi hans. Þetta er lífshættulegur leikur þar sem háttsettir yfirmenn innan CIA koma við sögu sem og forseti Rússlands.