Fall of Cybertron kemur á óvart – Leikjarýni

Kvikmynda – og tölvuleikjavefsíðan Nörd norðursins birtir hér að neðan í fyrsta sinn í samstarfi við kvikmyndir.is tölvuleikjarýni. Greinin fjallar um tölvuleikinn Transformers: Fall of Cybertron.

Lesið dóminn hér fyrir neðan, horfið á stikluna og skrifið athugasemdir í spjallkerfið:

Transformers: Fall of Cybertron kemur skemmtilega á óvart

Transformers eru vélmenni frá plánetunni Cybertron og þegar ég skrifa vélmenni þá meina ég mekanískar lífverur sem geta tekið hin ýmsu vélrænu form að vild (þeir geta breytt sér í farartæki eins og bíla og þotur; t.d. getur einn breytt sér í bæði þyrlu og þotu, hversu svalt er það?). Þessi vélmenni sitja ekki bara og drekka te og borða skonsur heldur skiptast þau í tvo hópa; Decepticons og Autobots sem elda grátt silfur saman (eða grátt stál í þessu tilfelli).

Decepticons, leiddir af Megatron, eru þeir vondu og Autobots, leiddir af Optimus Prime, eru þeir góðu.

 

Transformers: The Fall of Cybertron er þriðju-persónu skotleikur hannaður af Highmoon Studios, framleiddur af Activision og er óbeint framhald af Transformers: The War of Cybertron sem kom út 2010. The Fall of Cybertron stendur samt einn og sér og það hefur engin áhrif að hafa ekki spilað fyrri leikinn nema kannski til að þekkja forsöguna. Sjálfur þekki ég seríuna ekki mikið og er ekki Transformers aðdáandi. Það kom mér því skemmtilega á óvart hvað ég hafði gaman af þessum leik. Hann virkar eins og hann sé hannaður fyrir ákveðinn markhóp þ.e.a.s stráka á aldrinum 10-14 ára, en leikurinn kemur á óvart og mér skilst að hann eigi lítið sameiginlegt með Michael Bay myndunum (við vitum öll hvað verður um leiki sem eru byggðir á kvikmyndum). Þetta er gamaldags Transformers stemmning þ.e.a.s. það sem gerði þetta að vinsælu vörumerki í upphafi.

Góður fyrir hópinn sem er ekki orðinn nógu gamall fyrir Call of Duty

The Fall of Cybertron snýst um stríðið á milli Autobots og Decepticons og mikið er um átök og dramatíska atburði. Söguþráðurinn er hálfgert aukaatriði; maður er ekki að spila svona leik fyrir innihaldsríka sögu. Mikið “mannsfall” er á báða bóga og foreldrar þurfa að meta hvort að börn megi spila þetta en leikurinn er bannaður innan 12 ára. Ég nefni þetta því að leikurinn gæti verið góð skemmtun fyrir aldurshópinn sem er ekki nógu gamall fyrir t.d. Call of Duty leikina.

Ég hef sjaldan spilað svona leik sem er nánast stanlaust í efsta gír og með fótinn á bensíngjöfinni, það er nær aldrei dauður punktur. Fórnin er sú að stundum ræður tölvan (PS3) ekki við allt sem er að gerast á skjánum og hún fraus einstaka sinnum hjá mér. Vistun gerist sjálfkrafa og maður tekur nánast ekki eftir henni, ef maður drepst þá líður ekki langt þar til maður er kominn á sama stað aftur.

Þrátt fyrir að þetta sé góður leikur þá býst ég ekki við að fara oft í hann í framtíðinni; það eru betri skotleikir til staðar og tveir af þeim eru nýkomnir út. Hann kom mér samt skemmtilega á óvart og fær því þokkalega einkunn. Aðdáendur ættu ekki að hika við að grípa þennan.

Einkunn: 7,6/10

Höfundur: Steinar Logi Sigurðsson

Ath. lengri útgáfu af rýninni má nálgast hér.