Fagna velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar

Íslenskir kvikmyndadagar hefjast í Kaupmannahöfn miðvikudaginn 24. febrúar næstkomandi. Kvikmyndin Fúsi eftir Dag Kára verður sýnd við opnunina.

Íslensku kvikmyndadagarnir fara fram á Norðurbryggju, norrænu menningarmiðstöðinni í Kaupmannahöfn, þar sem fagnað verður þeirri miklu velgengni sem íslensk kvikmyndagerð nýtur um þessar mundir, eins og segir í frétt frá aðstendendum.

Islandske filmdage - programforside

Auk Fúsa býður dagskráin upp á Hrúta eftir Grím Hákonarson og heimildarmyndina Sjóndeildarhring eftir Berg Bernburg og Friðrik Þór Friðriksson að ógleymdri afmælissýningu á Börnum náttúrunnar eftir Friðrik Þór, en 25 ár eru nú liðin frá því að myndin var frumsýnd.

Miðvikudagskvöldið 2. mars verður helgað stuttmyndum þar sem sýndar verða Ártún eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, Megaphone eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur, Leyndarmál eftir Jakob Halldórsson, Hjónabandssæla eftir Jörund Ragnarsson og tvær myndir eftir Hlyn Pálmason, Sjö bátar og Málarinn.

Fimm leikstjórar ræða verk sín

Leikstjórarnir Dagur Kári, Grímur Hákonarson, Bergur Bernburg, Friðrik Þór Friðriksson og Hlynur Pálmason verða viðstaddir sýningar á myndum sínum og ræða verk sín við dagskrárstjórann Birgi Thor Møller og áhorfendur.

Norðurbryggjan (Nordatlantens Brygge) og Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn standa að íslenskum kvikmyndadögum í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands og með stuðningi frá Det Danske Filminstitut.

 

Stikk: