Faðir brúðarinnar snýr aftur eftir 25 ár

„Þriðja“ Father of the Bride myndin mun líta dagsins ljós á föstudag, með öllum upprunalegu leikurunum. Um er að ræða sjónvarpsviðburð og því ekki saga í hefðbundinni kvikmyndalengd. 

Það er streymisrisinn Netflix sem hýsir næstum-því-þriðju myndina – sem hlotið hefur nafnið Father of the Bride: Part 3(-ish) – í samstarfi við Facebook. Myndin verður afhjúpuð á samskiptamiðlinum kl. 22:00 á íslenskum tíma en framleiðslan unnin til að vekja athygli á samtökunum World Central Kitchen. 

Samtökin eru byggð á frjálsum framlögum og sjálfboðaliðum, aðallega kokkum úr öllum heimshornum, sem mæta á hamfararsvæði og gefa fólki að borða. Þau voru stofnuð eftir jarðskjálftana á Haíti árið 2010 þarf sem þörfin á neyðaraðstöð var brýn.

Upprunalega Father of the Bride-myndin frá 1991 með Steve Martin og félögum er endurgerð sígildrar myndar með Spencer Tracy. Segir þar frá George og Ninu Banks, sem eru foreldrar hinnar væntanlegu brúðar, Annie. George er hinn dæmigerði taugaveiklaði faðir, sem á erfitt með að sætta sig við að litla stúlkan hans er orðin fullorðin. Í myndinni er fylgst með undirbúningi brúðkaupsins og mörgu kostulegu sem fylgir honum.

Í framhaldinu þarf George að horfast í augu við að dóttir hans litla er nú orðin fullorðin kona og eiginkona, og núna bætist móðurhlutverkið við, en þetta reynist honum allt mjög erfitt að horfast í augu við, og sérstaklega þegar hann setur þetta allt í samhengi við eigið líf og eigin aldur og stöðu. Málin flækjast enn fremur þegar upp koma þau tíðindi að þau Nina eiga sjálf von á nýju kríli.

Lengi hefur staðið til að framleiða þriðju kvikmyndina og herma heimildir að handriti hefur verið lengi klárt. Nancy Myers skrifar og leikstýrir þessum þriðja „þætti,“ en hún er einn handritshöfundur og framleiðandi hinna tveggja. 

Með helstu hlutverk í Father of the Bride: Part 3(-ish) fara sum sé Steve Martin, Diane Keaton, Martin Short, Kimberly Williams-Paisley, George Newbern og Kieran Culkin. Þarna sameinast þau öll á skjánum í fyrsta sinn síðan árið 1995.

https://www.youtube.com/watch?v=5Uy_jMyccqU&feature=emb_title