Bandaríski leikarinn Ezra Miller hefur víða verið gagnrýndur vegna uppákomu hans á skemmtistaðnum Prikinu í Reykjavík í byrjun aprílmánaðar. Atvikið náðist á myndband og sést Miller þar spyrja konu hvort hún vilji slást, grípur þá utan um hálsinn á henni og snýr hana niður.
Margir fjölmiðlar hafa greint frá málinu en leikarinn hefur heimsótt Ísland reglulega undanfarin ár og hafa heyrst háværar sögusagnir um eiturlyfjaneyslu og geðræn vandamál hans. Í kjölfar þessa athæfis hafa margir kallað eftir því að Hollywood úthýsi leikaranum, en flestir þekkja Miller úr kvikmyndunum We Need to Talk About Kevin, The Perks of Being a Wallflower, Fantastic Beasts (1 & 2) eða sem Flash úr Justice League.
Hófst einnig undirskriftalisti á dögunum þar sem fólk krefst þess að framleiðendur DC kvikmyndanna reki Miller úr Flash-hlutverkinu og tilvonandi kvikmynd með fígúrunni.
Kórónuveiran „algjört kjaftæði“
Í samtali við DV segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, að Miller hafi óskað eftir fundi með henni til að ræða fjárframlag til kvikmyndahússins. Hermt er að Miller hefði mikið dálæti á Bíó Paradís og vildi láta breyta bíóinu í einkabíóklúbb. Segir Hrönn við DV að fundurinn sem fór fram á milli þeirra hafi verið stórfurðulegur og sökum annarlegs ástands leikarans hafi hann ekki skilað neinni niðurstöðu.
„Það hreinlega vall upp úr honum vitleysan. Ég sá það nokkuð fljótt að það var engan veginn í lagi með hann,“ segir Hrönn, sem segir að Miller hafi mætt á á fundinn ásamt fylgdarmanni sínum, sem hafi kynnt sig sem indjánahöfðingja.
„Þeir sögðust til dæmis vera í fararbroddi með nýtt system sem ætti að gjörbreyta og umbylta kvikmyndaheiminum eins og við þekkjum hann. Það var eins og hann væri í einhverju maníukasti, korteri frá því að fara í geðrof,“ segir Hrönn og bætir við að Miller hafi sagt við hana að kórónuveiran væri „algjört kjaftæði“ og hafi hann tekið því afar illa þegar hún hafi ekki verið samþykk hugmyndum hans um að breyta Bíó Paradís í einkaklúbb.
Að svo stöddu er enn reiknað með því að kvikmyndahúsið skelli í lás þann 1. maí næstkomandi.