Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is hefur nú birt dóm sinn um testesteróntryllinn The Expandables og er mjög hrifinn. Hérna má lesa dóminn í heild sinni.Sjö stjörnur fær myndin hjá Tómasi og lýsir hann henni sem ekta strákamynd, og líkir henni við karlmenn: „Að lýsa The Expendables væri eins og að lýsa flestum karlmönnum; Myndin er einföld, barnaleg á tíðum og hugsar mestmegnis um aðeins eitt hlut. Að vísu, í þessu tilfelli er miskunnarlaust ofbeldi það helsta sem svífur í kringum heila þessarar myndar í staðinn fyrir það sem við karlkynið hugsum oftast um. Hún er einnig alveg rosalega ástfangin af sjálfri sér og hreðjum sínum sérstaklega,“ segir Tómas.
Annars bætast regulega við umfjallanir frá okkar fjölmörgu og góðu notendum. Nýjustu umfjallanirnar á síðunni eru um myndirnar Fantasia, eftir Jónas Hauksson, The Last Airbender, eftir Kristján H. Magnússon, og Gosa og Mjallhvíti eftir Jónas Hauksson einnig.
Um Fantasiu segir Jónas m.a.: „Hugmyndin að Fantasiu er í raun mjög einföld. Misvel þekkt verk eftir misvel þekkta höfunda eru grunnurinn að því sem sést á tjaldinu. Fantasia inniheldur tónlist eftir t. D. Tchaikovsky (Hnotubrjóturinn), Mussorgski (Night on Bald Mountain), Schubert (Ave Maria), Bach (Toccata & Fugue) og fleiri.“
Um The Last Airbender segir Kristján m.a.:“Þeir hefðu betur bætt við áttatíu mínútum og gert myndina hægari og skiljanlegri, í stað þess að vera alltaf á hlaupum alla myndina.“
Um Gosa segir Jónas m.a.: „Það eru liðin 70 ár síðan Gosi kom fyrst út og ennþá er ég að bíða eftir mynd frá Disney (eða eiginlega bara teiknimynd yfir höfuð) sem er betri en hún. Eins og flestar myndirnar frá gullöldinni tapaði hún á miðasölu þegar hún kom fyrst; seinni heimsstyrjöldin hafði sennilega mikil áhrif á þetta (Undantekningar eru Snow White sem kom fyrir stríðið og Dumbo sem kostaði miklu minna).“
Um Mjallhvíti og dvergana sjö segir Jónas m.a.:“Ég mundi segja að hluti af síðari hluta myndarinnar sé myrkur, en ef það er miðað hana við myndirnar sem komu á eftir henni (Pinocchio, Fantasia, Dumbo og Bambi), þá er þessi mynd lítið óhugnandi og þunglyndisleg.“