Í dag fer á markaðinn í Bandaríkjunum enn eitt tækið sem á að gera kvikmyndaáhugamönnum auðveldara um vik að horfa á bíómyndir af Netinu í sjónvarpinu, en síðustu ár hefur það verið helsti höfuðverkur þeirra sem vilja fá fólk til að kaupa sér bíómyndir af netinu, hvernig hægt er að koma myndunum beint í sjónvarpið. Um er að ræða tæki, svokallað Set Top Box frá fyrirtækinu Vudu Inc. Sem tengist beint inn á internetið án viðkomu í heimilistölvunni. Vudu telur að hér sé loksins komin besta lausnin á þessu vandamáli og býður fólki upp á 5000 bíómyndir, mun meira en aðrir þjónustuaðilar hafa verið að bjóða, auk þess sem hér er um beintengingu inn í sjónvarpið að ræða. Þegar viðskiptavinurinn velur sér bíómynd til að horfa á þá geta þeir byrjað að horfa umsvifalaust. Ekki þarf að bíða eftir myndin halist niður því fyrstu sekúndur hverrar myndar eru nú þegar inni í tækinu. Greinarhöfundur The Wall Street Journal segir í umfjöllun sinni um tækið að þetta sé þó ekki tóm hamingja. Einstakar bíómyndir geta komið og farið og verið óaðgengilegar vegna réttindamála, auk þess sem það getur verið snúið að tengja við þráðlausa nettengingu. Tækið, eða kassinn, kostar 399 Bandaríkjadali, eða um 25 þúsund kall. Hægt er að bjalla í fyrirtækið núna ( ef þú býrð í Bandaríkjunum ) og leggja inn pöntun, en tækið fer þó ekki í póstinn fyrr en í lok mánaðarins. Samkvæmt WSJ eyddu neytendur í Bandaríkjunum 120,9 milljónum dala í niðurhalað skemmtiefni frá helstu framleiðendum á síðasta ári, einkum sjónvarpsþætti. Á þessu ári er talið að talan verði 281,6 milljónir dala, samkvæmt Adams Media Research í Carmel í Kalíforníu. Til samanburðar má geta þess að neytendur eyddu 16,4 milljörðum dala á síðasta ári í DVD mynddiska. Vudu ætlar sér að rukka frá 99 sentum til 3,99 fyrir leigu á mynd, en 4,99 dali og upp í 19,99 ef menn vilja kaupa.

