Þó svo að Eli Roth hafi tekist að halda sér ansi uppteknum undanfarin ár, m.a. með því að framleiða sjónvarpsþætti og kvikmyndir ásamt því að skrifa handrit að hinum ýmsu verkefnum (já og hanna skemmtigarð) þá eru fimm ár síðan hann settist síðast í leikstjórastólinn í Hostel: Part II.
Fyrir stuttu var tilkynnt að hann muni leikstýra hryllingsmyndinni The Green Inferno, en myndin verður byggð á Cannibal Holocaust sem kom út árið 1980 ásamt því að sækja efni í framhaldsmynd hennar sem hlaut það frumlega nafn Cannibal Holocaust 2 og kom út árið 1988.
Myndin fjallar um hóp einstaklinga sem brotlendir í frumskógum Perú og eru klófest af mannétandi ættbálk. Tökur munu hefjast í haust í Perú og Síle og reiknað er með að myndin komi út á næsta ári.
Ég er að fíla þetta! Hryllingsmyndir með mannætum og frumskógum voru vinsælar á áttunda áratugnum og það er von að Roth nái að gera eitthvað gott úr þessu. Cannibal Holocaust er nú ein af þekktari myndum þessa ‘genres’ og fór mikið fyrir brjóstið á fólki á sínum tíma. Mér er slétt sama hvað fólk segir, hann er hörkuleikstjóri og ég hef gaman af Cabin Fever og Hostel 1&2. Greinilega mikil subba framundan.