Robert Pattinson, sem leikur titilhlutverkið Batman, í The Batman, sem kemur í bíó 4. mars nk. segir í viðtali sem framleiðendur hafa dreift til fjölmiðla að hann hafi fyrir slysni plantað þeirri hugmynd í huga framleiðanda myndarinnar, Dylan Clark, að hann gæti verið rétti maðurinn í hlutverk Leðurblökumannsins.
„Við Dylan vorum að funda útaf öðru og þá … í raun, ef ég á að vera heiðarlegur, þá held ég að ég hafi örugglega verið að fiska eftir því, en ég vissi ekki stöðuna á verkefninu. En ég man að við ræddum lengi saman og svo undir lokin sagði ég „en hvað er að frétta af The Batman?“ En það passaði ekki inn í þá hluti sem ég var að fást við á þessum tíma. En með Batman, af einhverri ástæðu, þá er það eina teiknimyndapersónan sem ég myndi nokkurn tímann leika. Hann er sá allra svalasti. Og ég hélt að ég ætti engan séns. Þannig að ég hugsaði sem svo „það sakar ekki að láta vita af sér“. Ég áttaði mig ekki á að Matt [Reeves leikstjóri] var þá þegar farinn að hugsa um mig í hlutverkið, sem var dásamleg tilviljun.“
Hefur ekki fulla stjórn
Spurður um álit hans í fyrstu á nálgun leikstjórans á persónuna, segir Pattinson: „Það var dálítið fyndið því ég áttaði mig ekki strax á því afhverju hún virtist vera öðruvísi, og ég þurfi í raun að tala um það við hann eftirá, og hann sagði sem svo, „Ah, já, það er vegna þess að Bruce Wayne er ekki glaumgosi í myndinni. Hann er ekki glaumgosi og hann hefur ekki fulla stjórn.“
Í hinum myndunum þá er hann með fullkomna stjórn á aðstæðum allan tímann. Hann getur skipt úr því að vera Bruce yfir í Batman án vandræða, en í þessari mynd er hann í raun Batman allan tímann, þ.e. hann getur látið Bruce hverfa. Ég á við, Bruce skiptir Bruce engu máli, hann er bara einhver hliðarhugsun í lífinu, sem er dálítið dapurlegt. En persónan Bruce fer þó að lifna við eftir því sem sögunni vindur fram, en hann hugsar: „Ég vil bara yfirgefa það allt saman. Ég vil bara alltaf vera Leðurblökumaðurinn. Ég er bara Bruce þegar ég sef,“ í raun og veru.
Lifað einsetulífi
Í myndinni er ekkert farið inn á forsögu Batmans þó vísað sé til hennar að sögn Pattinson. „Í teiknimyndasögunum er alltaf tímabil þar sem segir „Já, ég fór í burtu og æfði og æfði og náði að fullkomna mína hæfileika.“ Og svo, þegar Batman kemur til Gotham, þá er hann klár í slaginn, fullmótaður. En í myndinni virðist hann hafa lifað einsetulífi í mörg ár og svo fer þetta að mótast fyrir honum. Og það er minni rökfræði á bakvið það.