Enn meiri vangaveltur um Cloverfield 2

Það eru margir búnir að fá gjörsamlega nóg af vangaveltum um þessa mynd en nýverið birtist viðtal við hönnuð skrímslisins í Cloverfield og hann gaf upp nokkur áhugaverð atriði sem gæti verið kafað betur ofaní í næstu Cloverfield mynd.

Hönnuðurinn heitir Neville Page og hannaði hann einnig Cloverfield leikfangið sem kom út vestanhafs fyrir stuttu. Í nýlegu viðtali tekur hann fram að senur hafi verið klipptar út úr Cloverfield sem sýndu að skrímslið gæti borðað í gegnum hendurnar. Þeim fannst það vera rétta leiðin til að „persónugera“ skrímslið þar sem að ef það myndi alltaf grípa upp fólk með höndunum þá væri það svipað og menn að grípa upp maura og myndi gera það svo óraunverulegt. Neville var mjög ósáttur við að þær senur hafi verið klipptar út.

Hann segir einnig að litlu skrímslin sem virðast hrynja af því ekki af því að það sé að fæða þau, þetta eru ekki börn skrímslins. Litlu skrímslin eiga að virka eins og nokkurskonar „ryksugur“ sem eiga að drepa litlu lífverurnar (sem reyndist vera fólk í Cloverfield) fyrir framan sig svo að stóra skrímslið þurfi ekki að vesenast í þeim.

Hann tók einnig fram að skrímslið hafi verið kallað Clover alveg út myndina og þarafleiðandi bar myndin nafnið Cloverfield.

Í næstu mynd (ef hún verður gerð) þá segir Neville að hugmyndin sé þannig að skrímslið þróist þannig að það labbi á tveimur fótum, það hafi aðeins gengið svona asnalega í fyrstu myndinni vegna þess að það var nýfætt. Einnig segir hann að öskrin í því séu meira hjálparöskur sem að vonast er til að móðirin heyri svo það geti hjálpað því því að skrímslið sé hrætt.

Cloverfield kemur út á DVD eftir nokkra daga vestanhafs og eru menn gríðarlega ósáttir við þá ákvörðun að gefa hana ekki út á blu-ray. Þannig að þeir sem eiga blu-ray spilara mega ekki búast við því að horfa á Cloverfield í biluðum gæðum á næstu mánuðum/árum ef einhverntímann.