Endurlit: Intouchables

Intouchables er eitt af þessum lífsnauðsynlegu meðölum sem mikilvægt er að hafa við hendina svo maður breytist ekki í algjöran fýlupoka í lífinu. Þetta er mynd sem kannar það hversu mikla sál þú hefur og launar þér síðan með afslappaðri, huggulegri, ótrúlega fyndinni og mannlegri bíómynd sem tekst næstum því að sigrast á helstu göllum sínum bara með því að vera hún sjálf. En bara næstum því.

Uppsetningin er ótrúlega hefðbundin, nánast svo mikið að maður spyr sig hversu miklu hefur verið breytt úr hinni sönnu sögu sem er verið að segja. Reyndar verður strax augljóst hvernig breytingar voru gerðar hjá persónunum (eða allavega einni), en væri þessi mynd gerð í Bandaríkjunum hefði hér verið ágætt tækifæri til að búa til teygða mynd sem leikur sér með tilfinningar þínar og sýgur tárkirtlanna úr þér með tilgerðarlegri dramatík. Sem betur fer er þessi litla franska perla nógu snjöll til að koma ekki fram við áhorfendur sína eins og heiladauða apaketti og rúllar bara á sínum hraða og spilar með nákvæmlega þá styrkleika sem hún veit að hún hefur; gott handrit, þægilegan tón og leikarasamspil sem er með því betra sem sést hefur síðastliðið ár. Úr þessu þrennu myndast ákveðinn sjarmi sem gerir þessa merku mynd alveg þvílíkt knúsanlega.

Með aðeins meiri krafti hefði þetta léttilega getað orðið að mini-meistaraverki. Myndin er ofureinföld og sykruð en eiginlega af nauðsyn vegna þess að hún forðast það að vera melódramatísk og þung og er heldur ekkert að skella tilgangslausri byrði við söguna (eins og stefnulaus sub-plott eða áhersla á aukapersónur sem skipta engu máli). Það kemur einnig skemmtilega á óvart hvernig svona indæl mynd getur lyktað svona sterkt af földum rasisma. Til dæmis átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna annar aðilinn úr hinu dásamlega tvíeyki myndarinnar er næstum því gerður að beinni staðalímynd, á meðan fyrirmynd sögunnar virðist alls ekki passa við þennan prófíl. Hann er nú frá Arabíu í raun og þ.a.l. jafn nálægt því að vera hvítur (er það nokkuð of ljótt að nota orðið „karamellubrúnn?“). Segjum bara að myndin hafi ákveðið að „sverta“ hann aðeins upp. Kannski örlítið meira en bara aðeins.

Karakterinn er að vísu algjör snillingur, þannig að vandinn er í sjálfu sér enginn. En hér erum við engu að síður að ræða um gettó-blökkumann sem ræðst á fólk upp úr þurru ásamt því að vera erfiður, þröngsýnn á tónlist sem hann getur ekki dansað við og gengur alltaf um með jónu á sér. Heldur er hann ekkert alltof duglegur að róa sig á greddunni í návist fallegra kvenna, sem er svosem ekkert óalgengt á meðal karlmanna. Ég beið þess í rauninni að sjá hvort KFC kæmi myndinni eitthvað sögunni við, til að loka þessum prófíl með stæl. En hvort sem leikstjórarnir hafi áttað sig á þessu eða ekki, þá eru merkin frekar geislandi þótt þau skemmi hvergi myndina.

Ef ég myndi giska þá myndi ég þó halda að hér hafi bara verið gerð undantekning til að velja rétta manninn í hlutverkið frekar en að einblína á lítil smáatriði. Omar Sy er nefnilega stórkostlegur í sínu hressa en viðkunnanlega hlutverki, en ekkert síður fullkominn heldur en mótleikari hans, François Cluzet – eða „franski Dustin Hoffman“ eins og ég kalla hann. Hlátur þessara manna er geysilega smitandi, eins og maður geti þreifað á vináttu þeirra, og vil ég gjarnan útnefna þá sem eitt besta tvíeyki ársins, ef ekki síðasta árs. Annars er þetta hin dásamlegasta „feel good/crowd pleaser“ rasistaperla sem mun gera daginn þinn betri.
Það er guaranterað!


(8/10)