Leikkonan Emma Watson sagði frá því í nýlegu viðtali við tímaritið GQ að hún hafði æft súludans fyrir kvikmyndina The Bling Ring. Watson fór í súludanskennslu til hliðar við nám sitt í Oxford því persóna hennar sýnir listir sínar á súlunni í einu atriði í kvikmyndinni sem er væntanleg í júní.
Watson sagði að þetta hafi verið súrrealísk reynsla því hún hafi verið að skrifa ritgerð um Virginia Wolf á föstudagskvöldi og vaknað svo daginn eftir og keyrt til London til þess að læra súlufimi. Einnig er haft eftir Watson að hún beri mikla virðingu fyrir súludansmeyjum eftir kennslustundir sínar.
The Bling Ring er byggð á sannsögulegum atburðum um ungt glæpagengi sem lagði það á sig að ræna eignum ríka og fræga fólksins í Hollywood. Aðal hugmyndasmiðurinn á bakvið hópinn var hin 19 ára Nicki (Watson). Metnaður Nicki var að eignast föt og lífsstíl eins og Lindsay Lohan og Paris Hilton, og til þess þurfti hún að ræna hús þeirra og annarra stórstjarna. Hópurinn hafði þann háttinn á að nota internetið til þess að afla sér upplýsinga um það hvar möguleg fórnarlömb byggju og hvenær þau væru að heiman.