Rappsöngvarinn og kvikmyndaleikarinn vinsæli Eminem, hyggst snúa aftur á hvíta tjaldið í myndinni Random Acts of Violence, að því er tímaritið Vulture segir frá. Myndin verður framleidd af 20th Century Fox kvikmyndaverinu.
Eminem myndi leika aðalhlutverkið í myndinni sem er glæpaþriller, og mun segja frá fyrrum fanga sem lendir í klemmu á milli fyrrum glæpaklíku sinnar og alríkislögreglunnar FBI, sem vilja fá hann til að vinna fyrir sig sem uppljóstrari.
Samkvæmt hugmyndum sem eru í gangi núna þá er gert ráð fyrir að höfundurinn sem vann uppkastið að handritinu, David Von Ancken, muni leikstýra, eftir að hann lýkur vinnu sinni við þættina Californication.
Eminem lék eins og menn muna í hinni sjálfsævisögulegu mynd 8 mile, sem leikstýrt var af Curtis Hanson, og fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína.