Stikla fyrir næstu mynd leikarans Elijah Wood var birt á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem fer fram um þessar mundir og það er vægast sagt hægt að segja að hún sé ansi sturluð. Myndin ber nafnið Maniac og fjallar um eiganda gínubúðar sem finnst ekkert betra en að skreyta gínurnar sínar með ýmsum líkamshlutum.
Maniac er leikstýrt af Franck Khalfoun sem gerði síðast P2 sem kom út árið 2007 og vakti nú ekki beint mikla lukku. Alexandre Aja skrifar handritið að Maniac, en hann og Franck unnu saman við gerð P2 og Piranha 3D. Hann er greinilega allur í endurgerðunum hann Franck, því Maniac er endurgerð samnefndrar hryllingsmyndar frá 8.áratugi síðustu aldar.
Stiklan segir meira en þúsund orð, en hana er hægt að sjá hér fyrir neðan.
Myndin lítur ekki út fyrir að vera típísk big budget Hollywood mynd og það er ansi sérstakt að sjá Wood leika morðingja þó svo að maður ætti nú að vera vanur því eftir Sin City. Maniac verður frumsýnd á Cannes hátíðinni og í framhaldinu verður ákveðið hversu mikla dreifingu hún fær og hvenær hún verður frumsýnd almenningi. Ég ætla allavega að kíkja á upprunalegu myndina á næstunni..