Ekki þó ný Amityville mynd!!

Því miður lítur út fyrir að einn aulinn í Hollywood, Daniel Farrands að nafni (frægastur helst fyrir að hafa skrifað handritið að Halloween 6) sé að selja hugmyndina að því að endurgera gömlu Amityville hryllingsmyndirnar. Hann sækist eftir að framleiða þessa endurgerð, sem myndi fylgja söguþræði fyrstu myndarinnar um par sem flytur í hús eitt sem er andsetið af illum öflum. Hann á nú í samningaviðræðum við Dimension Films um fjármögnun að þessari vitleysu, og vonast hann til þess að það sama muni gerast og þegar Halloween: H20 lífgaði við Halloween seríuna. Það er því mjög líklegt að við fáum að sjá þessa endurgerð fyrr eða síðar. Af hverju? Af því að Hollywood endurgerir allar myndir á endanum, sama hvort þær voru góðar eða ekki.