Kvikmynd David Lynch “Dune” frá 1984 byggð á skáldsögu Frank Herberts frá 1965 er áhugavert innlegg í kvikmyndasöguna.
Þegar bókin kemur út er hippatíminn að springa út og þemu bókarinnar sem eru umhverfisvernd, andúð á stórfyrirtækjum, ofnýtingu náttúruauðlinda og áhersla á að efla hæfileika mannsins frekar en tækni áttu upp á pallborðið. Eftir því sem sala á bókinni jókst, þeim mun meira áhugi varð á því að kvikmynda hana. Fyrsta tilraunin var gerð 1976 þegar “költ” leikstjórinn Alejandro Jodorowski var fenginn í verkið sem undirbjó útgáfu af myndinni sem hefði innihaldið tónlist eftir Pink Floyd, hönnun eftir H.R. Giger (sem hannaði m.a. Alien skrímslið) og verið með leikurum eins og Orson Welles, Mick Jagger og málaranum Salvador Dali í aðalhlutverkum. Á endanum rann sú framleiðsla út í sandinn, m.a. vegna þess að Jodorowski neitaði að gera neinar málamiðlanir á því að myndin yrði á bilinu 12-14 klst löng.
Árið 1982 tryggði ofurframleiðandinn Dino De Laurentiis sér kvikmyndaréttinn og eftir að snemmbúin tilraun til að gera myndina með Ridley Scott fór út um þúfur fór hann að leita að rétta leikstjóranum til að gera myndina. Dóttir hans, Raffaella benti honum á Lynch sem þar var þá nýbúinn að gefa út Fílamanninn (The Elephant Man) sem bæði fékk gríðarlega góðar viðtökur gagnrýnenda sem og skilaði góðum tekjum í kassann. Það varð úr á endanum að Lynch fékkst í verkið undir framleiðslu Raffaellu (innsk: Þegar Raffaella De Laurentiis framleiddi Dune, þá var í fyrsta sinn sem kona framleiddi kvikmynd sem kostaði meira en 5 milljón dollara) og undirbúningur hófst.
Framleiðsla Dune var erfið; Lynch vildi gera “Lynch” mynd meðan framleiðendur vildu að hann gerði aðgengilegan vísindaskáldskap/fantasíu sem hægt væri að selja á stórum skala ala Star Wars því allir voru að reyna að endurtaka velgengni hennar. Á endanum sköruðust þessi sjónarmið þannig að lokaklipp myndarinnar var tekið af Lynch og myndin stytt um tæpan klukkutíma (í því samhengi má nefna að myndin var á sínum tíma dýrari en Star Wars og fjórum sinnum dýrari en E.T. þannig að mikil pressa var á). Í kjölfarið hefur Lynch afneitað myndinni og í raun ekki viljað ræða hana meira. Myndin var sýnd í kvikmyndahúsum árið 1984 við dræmar undirtektir gagnrýnenda (með undantekningum þó. Sci-fi tröllið Harlan Ellison sem giggaði sem kvikmyndagagnrýnandi var hrifinn) sem og almennings. Myndin var flókin og erfið fyrir þá sem þekktu ekki bókina og í því samhengi fengu áhorfendur lítinn bækling með miðanum sínum sem útskýrði helstu hugtökin. Þess utan voru fingraför Lynch alls staðar á myndinni.
Dune er bara pínu skrítin eins og allar Lynch myndir eru og það er seint hægt að horfa á þessa mynd og sjá í henni eitthvað sem hægt sé að selja öllum. Það breytir því ekki að það er margt í henni stórkostlegt, þó ekki væri annað en öll útlitshönnun myndarinnar. Dune þverneitar að reyna að vera framtíðarleg á neinn hátt heldur leggur uppúr settum sem ýmist eru eins og olíuborpallar á sterum (Giedi Prime – pláneta hinnar hötuðu Harkonnen fjölskyldu), miðaldakastalar (Caladan – pláneta hinna göfugu Atreides fjölskyldu) eða með sterkum vísunum í menningu mið-austurlanda (bústaðir Fremen-réttlætisriddara Arrakis plánetunnar) og þar sem t.d. stjórnklefar geimskipa eru viðarklæddir. Búningar vísa í nasista, evrópskan aðal, munka/nunnukufla og allt þar á milli og undir drunar mögnuð tónlist Toto (sem gerði fyrir myndina sitt fyrsta og síðasta kvikmyndatónlistarverk) og meistara Brian Eno.
Frábært leikaraval prýðir myndina þar sem kempur og eins og Jurgen Prochnow, Max von Sydow og ungur Patrick Stewart (söngvarinn Sting stelur sínum fáu atriðum sem Feyd Rautha Harkonnen) skjóta upp kollinum. Kyle MacLachlan leikur aðalhlutverk myndarinnar og stendur sig með prýði og náði að heilla Lynch nægilega mikið til að leika síðar aðalhlutverkið í þáttum Lynch um Tvídranga (Twin Peaks).
Með árunum hefur myndast költ í kringum myndina og á hún sér í dag hóp heitra aðdáenda, þ.á.m. höfund þessarar greinar. Þrátt fyrir að vera meingölluð, og hún er það klárlega, þá er eitthvað við hana sem er magnað og einstakt. Mynd sem reynir og mistekst er alltaf áhugaverðari og meira varið í en mynd sem ekkert reynir yfirhöfuð, og er Dune gott dæmi um slíkt.
Hollywood er ekki búin að gefast upp á Dune og á næstu vikum kemur í bíó og streymisveitur ný útgáfa fyrir nýja kynslóð eftir Denis Villeneuve sem kvikmyndaði fyrri hluta bókarinnar með von um velgengni svo hægt væri að kvikmynda seinni hlutann. Það verður áhugavert að sjá hvort honum hafi tekist að kvikmynda bókina á hátt sem höfðar meira til almennings. Þangað til ætla ég að skella Lynch útgáfunni í tækið og njóta hennar enn einu sinni og fyrir þau ykkar sem hafa ekki séð hana enn, endilega gefið henni séns, því ég lofa að hvort sem þið fílið hana eða ekki þá er hún einstök.