Einn á móti öllum leigumorðingjum borgarinnar

Fyrsta stiklan fyrir spennutryllinn John Wick 3: Parabellum er komin út. Þar mætir enginn annar en Keanu Reeves aftur á svæðið í titilhlutverkinu, sem leigumorðinginn ískaldi John Wick.

„There is no escape for you, the high table wants your life,“ segir spákona við Wick, skömmu eftir að við sjáum hann í upphafi stiklunnar á hlaupum eftir regnblautum strætum stórborgar New York með hundinn sér við hlið.

Nú virðast öll sund lokuð fyrir John Wick. Allir leigumorðingjar borgarinnar eru á eftir honum, enda er rausnarleg upphæð sett til höfuðs honum, eða 14 milljónir bandaríkjadala, um 1,7 milljarðar íslenskra króna.

John notar mótorhjól, tvo jafnfljóta, hest og bíla sem fararskjóta, og við sjáum hann meira að segja staulast um í eyðimörkinni, af einhverjum ókunnum ástæðum.

Myndin er lokamynd í mögnuðum og að segja má óvæntum þríleik, en fyrsta John Wick myndin varð óvænt stór smellur árið 2014, og bæði áhorfendur og gagnrýnendur hrifust.

Tekjur myndarinnar í miðasölunni námu 88 milljónum bandaríkjadala, en framhaldið, John Wick: Chapter 2 gerði enn betur, og náði að raka saman 171 milljón dala um heim allan.

Leikstjóri er Chad Stahelski, sem hefur tengst öllum þremur kvikmyndunum. Hann með-leikstýrði fyrstu kvikmyndinni með David Leitch, og var svo einn við stjórnvölinn í þeirri næstu. Handrit skrifar Derek Kolstad, sá sami og skrifaði mynd númer 1 og 2.

Aðrir helstu leikarar eru Ian McShane, Ruby Rose, Common, Lance Reddick, Laurence Fishburne, Hiroyuki Sanada, Jason Mantzoukas, Anjelica Huston, Boban Marjanovic og Óskarsverðlaunaleikkonan Halle Berry, en hún kemur þónokkuð við sögu í stiklunni.

Myndin kemur í bíó í Bandaríkjunum, eins og hér á Íslandi einnig, 17. maí nk. sem sýnir best þá trú sem Lionsgate framleiðslufyrirtækið hefur á myndinni, en á þessum tíma árs eru jafnan frumsýndar stórar og flottar sumarmyndir.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan, og plakat þar fyrir neðan: