Einfalt en æðislegt Gangster Squad plakat

Skoðanir verða líklegast skiptar í garð nýjasta plakats mafíumyndarinnar Gangster Squad, en það er sáraeinfalt en samt eitthvað svo flott á sígildan máta – hönnun sem hefur sárlega vantað í plakatsgerð upp á síðkastið. Svalt og afslappað, en samt svo hreint og vandað.

Í raun virkar þetta meira eins og hönnun fyrir DVD-útgáfu myndarinnar frekar en bíóplakat, en er það ekki bara hluti af sjarmanum?

Fyrir þá sem ekki vita er Gangster Squad nýjasta kvikmynd leikstjórans Ruben Fleischer (Zombieland, 30 Minutes or Less) sem skartar engum smá fagmönnum í aðalhlutverkunum. Margir hafa eflaust ruglast á þessari og Lawless (ég get ekki verið sá eini), en sögusviðið er allt annað þó þær gerist á sama tímabili í sögunni.

Myndin er byggð á viðamikilli grein sem birt var í sjö hlutum í LA Times-tímaritinu er fjallaði um aðgerðir lögreglunnar í Los Angeles á fimmta áratug síðustu aldar til að berjast gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.

Myndin er væntanleg í bíó þann 1. febrúar hérlendis og í janúar úti, en þetta hljómar mun meira eins og desember-mynd frekar en janúar-ræma, en í ár er desember-samkeppnin nefnilega gríðarlega hörð.

Komum smá umræðu af stað til að hressa upp á daginn; hvað er uppáhalds mafíumyndin þín og af hverju? Sama á hvaða tímabili í sögunni myndin gerist.