Gamanleikarinn Eddie Murphy ætlar mögulega að herja á Bretland á næstunni með frumsaminni reggae tónlist, en reggae tónlist hans hefur notið nokkurrar velgengni í Bandaríkjunum og von er á nýju lagi frá honum á næstunni; Oh Jah Jah, en hlusta má á lagið hér fyrir neðan:
„Ef fólk kann vel við lögin, þá ætla ég að setja saman litla hljómsveit og koma og gera eitthvað,“ sagði Murphy við þáttastjórnendur BBC Radio 1Xtra, þau Twin B og Yasmin Evans, sem bæði eru gallharðir aðdáendur tónlistar kappans.
Murphy hefur haft gaman af jamaíkanskri tónlist allt sitt líf, eða síðan hann kynntist tónlist Bob Marley þegar hann var í miðskóla.
Hann fór að gera eigin tónlist árið 2013 ásamt rapparanum Snoop Dogg, og nú er tilbúin plata sem heitir 9.
Það var frábært að vinna með Snoop heima hjá mér. Við vorum bara að slaka á og taka upp,“ sagði Murphy en eins og heyra má þá er lagið hið áheyrilegasta.
Murphy, sem er 53 ára gamall, fékk Golden Globe verðlaunin fyrir túlkun sína á sálarsöngvaranum James Early í myndinni Dreamgirls árið 2006.
Murphy segist ekki vera að reyna að verða poppstjarna – þetta sé einungis áhugamál.
„Ef mér líður vel með eitthvað sem ég er að gera, þá leyfi ég fólki að heyra það, hvort sem það svo tekur því alvarlega eða ekki, ég hugsa ekki mikið um það,“ sagði Murphy að lokum.