Fyrrum X-Files leikarinn og núverandi stjarna Californication þáttanna, David Duchovny, mun leika í nýrri dramaseríu sem fjallar um Manson fjölskylduna. Duchovny hefur verið staðfestur í hlutverk rannsóknarlögreglumanns sem rannsakaði Charles Manson áður en hann varð þjóðþekkt illmenni.
„Ég held að þættirnir eigi möguleika á því að verða virkilega góðir og ég get ekki beðið eftir því að byrja.“ var haft eftir Duchovny.
NBC mun sýna þættina og verða þeir þréttan talsins til að byrja með. Þættirnir bera heitið Aquarius og gerast á sjöunda áratugnum. Persóna Duchovny og yngri bróðir hans byrja á því að rannsaka smákrimma sem sérhæfir sig í því að táleiða ráðvillt ungmenni á sitt band, sem seinna verða hluti af Manson fjölskyldunni.
Upphafið að svokölluðu fjölskyldu Charles Manson má rekja til ársins 1967 þegar hann var nýbúinn að losna úr fangelsi. Manson hafði alla tíð verið góður í vinna fólk á sitt band. Þetta ár í Haight-Ashbury hverfinu kynntist hann Mary Brunner, bókaverði, og barnaði hana. Ekki leið á löngu þar til Susan Atkins, Leslie Van Houten, Linda Kasabian, Patty Krenwinkel og fleiri konur hændust að Manson. Næstu tvö árin stækkaði fjölskyldan til muna og á tímabili voru alls 30 konur í fjölskyldunni og tíu karlar. Manson skipulagði og ýtti undir fjölmörg morð og hvatti meðlimi fjölskyldunnar til að fremja þau. Hann hafði gífurleg áhrif á meðlimi fjölskyldunnar og má með sanni segja að hann hafi náð að heilaþvo meðlimina algjörlega.