Draugur í hvítu laki

Íslendingar elska draugasögur, og nú hefur heldur betur hlaupið á snærið því fyrsta stiklan úr myndinni Draugagangur, eða A Ghost Story, er komin út. Fjórir mánuðir eru þangað til myndin verður tekin til almennra sýninga, nánar tiltekið þann 17. júlí nk.

Stiklan er reyndar ekki mjög „draugaleg“, miklu frekar ljúfsár og seiðandi.  Rooney Mara og Casey Affleck fara með aðalhlutverkin.

Í myndinni glímir Mara við fráfall maka síns, sem kemur okkur fyrir sjónir í myndinni sem draugur í hvítu laki.

„Þegar ég var lítil þá vorum við alltaf að flytja,“ segir Mara í stiklunni. „Ég skrifaði litla miða, braut þá saman og faldi þá.“

„Hvað stóð á miðunum,“ segir Affleck.

„Bara atriði sem ég vildi muna, þannig að ef ég kæmi aftur á staðinn, þá væri eitthvað þar sem biði eftir mér,“ svarar Mara.

Myndin var fyrst frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar sl. Hún gerist nánast alfarið í húsi í Texas, þar sem draugurinn í lakinu sveimar um, eftir að persóna Affleck deyr í bílslysi. Pete´s Dragon leikstjórinn David Lowery heldur um leikstjórnartaumana í myndinni.

 

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: