Dóttir Leiu snýr aftur

Dóttir Star Wars leikkonunnar Carrie Fisher, eða Leiu prinsessu, Billie Lourd, mun snúa aftur í Star Wars: Episode VIII, en Lourd þreytti frumraun sína í kvikmyndaleik í Star Wars: The Force Awakens. 

lourd

Í myndinni lék hún Connix höfuðsmann, en kom aðeins stuttlega fram. Sjálf lýsti hún hlutverki sínu í gríni með tilvísun í bækurnar „Hvar er Valli.“

Á meðfylgjandi mynd sést leikkonan í hlutverki sínu, en hún skartar þar að því er virðist einhverri útgáfu af hársnúð, eins og Leia prinsessa er fræg fyrir.

Leikkonan unga staðfesti þetta í samtali við vefsíðuna Slashfilm og sagði að hún myndi fá stærra hlutverk í Star Wars 8 en í fyrri myndinni.

„Já, ég get ekki sagt mikið um það, en já. Ég er í Star Wars VIII og meira get ég ekki sagt.“

Í Star Wars: The Force Awakens, heyrði Lieutenant Connix beint undir Leia Organa, sem Carrie Fisher lék, einn helsta leiðtoga andspyrnuhreyfingarinnar.

Star Wars: Episode VIII er leikstýrt af Rian Johnson sem einnig skrifar handritið.

Tökur myndarinnar hófust í febrúar sl. en frumsýningardagur verður 15. desember 2017.