Fyrir stuttu leit út fyrir að nýjasta mynd Baltasars Kormáks (ekki Contraband, heldur hin), Djúpið, myndi birtast í kvikmyndahúsum núna um áramótin. Þetta þótti heldur betur óvenjulegt enda furðulega stuttur fyrirvari þegar hvorki stikla né plakat hafði sést neinstaðar. Það hlýtur að breytast á næstu vikum.
Það lítur annars út fyrir að aðstandendur og markaðsmenn ætli að taka núna sinn tíma og gefa frumsýningardeginum meira rými til að anda, og núna hefur myndin verið sett þann 23. mars næstkomandi (tveimur vikum eftir að spennumyndin Svartur á leik verður frumsýnd – en hún færðist einnig og átti að koma fyrst út núna í janúar).
Það er enginn annar en Ólafur Darri Ólafsson sem fer með aðalhlutverkið í Djúpinu. Myndin er byggð á samnefndu leikriti sem byggir á sannsögulegum atburðum og þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar (þekktur sem „Saundlaugur“) þegar honum tókst að synda í land eftir að báturinn Hellisey, sem hann var skipverji á, sökk um miðja nótt þann 11. mars 1984, um 5 km frá Vestmannaeyjum.
Annars hefur ekkert breyst með næstu mynd Baltasars, Contraband. Ólafur Darri sést líka í smáhlutverki í þeirri mynd. Hún kemur út seinnipartinn í næsta mánuði. Kvikmyndir.is mun eflaust birta gagnrýni á næstunni.