Disney hefur staðfest að fornleifafræðingurinn og ævintýrahetjan Indiana Jones muni mæta til leiks í nýrri mynd, eftir margra mánaða vangaveltur þar um.
Forstjóri Disney, Bob Iger, tilkynnti þetta í myndbandsviðtali við Bloomberg fréttaveituna og lofaði þar að „fleiri frábærar sögur úr sagnabálkum George Lucas, Star Wars og Indiana Jones, væru á leiðinni.“
Steven Spielberg, leikstjóri fyrstu fjögurra myndanna um Indiana Jones, hefur nú þegar gefið í skyn að hann væri til í að leikstýra annarri mynd með Harrison Ford í aðalhlutverkinu, en hann lék aðalhlutverkið í öllum hinum myndunum.
„Svo lengi sem það eru fleiri ævintýri þarna úti, þá á ég svipuna, hattinn og leðujakkann og ég þekki mann á hesti sem veit hvernig á að gera þetta,“ sagði hann í samtali við Screen International, og bætti þar við að enginn nema Ford kæmi til greina í hlutverkið.
Ford, sem nú er 71 árs, hefur leikið hlutverkið síðan árið 1981, þegar fyrsta myndin, Raiders of the Lost Ark kom út. Óvíst er hvort hann sjálfur er til í að leika í einni mynd til viðbótar. Chris Pratt og Bradley Cooper hafa verið orðaðir við hlutverkið, ef Ford skyldi ekki gefa kost á sér.
Disney keypti kvikmyndaréttinn að bæði Indiana Jones seríunni og Star Wars seríunni þegar fyrirtækið keypti Lucasfilm fyrir fjóra milljarða Bandaríkjadala árið 2012.