Disney sleppir Deuce 2

Disney veldið hefur nú ákveðið að það falli ekki að ímynd þess að standa á bak við framhaldið af Deuce Bigalow: Male Gigolo, þó þeir hafi gert fyrri myndina og hún hafi verið smellur. Þeir hafa hins vegar leyft Rob Schneider að fara með handritið um Hollywood og sjá hvort einhver annar vilji ekki kaupa útgáfuréttinn á myndinni. Schneider, sem skrifaði handritið sjálfur ásamt David Garrett og Jason Ward, skilaði víst inn mjög grófu efni og Disney fékk eitthvað fyrir brjóstið. Framhaldið ber heitið Deuce Bigalow: European Gigolo, og er það vinur Schneiders, Adam Sandler, sem framleiðir myndina í gegnum Happy Madison framleiðslufyrirtæki sitt. Ýmis kvikmyndaver ku hafa áhuga á myndinni, en það sem stendur í vegi fyrir góðum samningi er sú staðreynd að Disney vill fá 5% af öllum hagnaði í staðinn fyrir útgáfuréttinn. Columbia kvikmyndaverið er líklegast á þessari stundu, en ekki eru þau öll kurl komin til grafar enn.