Ekki Hannibal Lecter, heldur hershöfðinginn Hannibal Barca, sem leiddi fílum búinn her sinn yfir alpana til þess að ráðast á rómverska heimsveldið eins og frægt er orðið. Hannibal þessi var hershöfðingi einn frá Karþagó í N-Afríku, sem hertók Spán, en var síðar sigraður af rómverska hernum. Eftir mikla baráttu, og þegar ljóst var að leiknum var lokið, framdi hann sjálfsmorð. Vin Diesel mun leika hann í nýrri kvikmynd sem byggð verður á bókinni Hannibal eftir Ross Leckie. Stefnt er að því að vinna á myndinni fari fram áður en hafist verður handa við gerð framhaldsins af XXX með Diesel, sem kemur seinna í sumar og búist er við að verði smellur. Diesel mun einnig framleiða Hannibal, í gegnum framleiðslufyrirtæki sitt, One Race Productions.

