Leikarinn Leonardo DiCaprio og leikstjórinn Martin Scorsese eru sagðir vera að undirbúa kvikmynd um fyrrum Bandaríkjaforsetann, Theodore Roosevelt.
Eftir að kvikmynd þeirra, The Wolf of Wall Street sló í gegn þá hafa þeir verið að stinga saman nefjum á ný. Þykir það engin furða í ljósi þeirra kvikmynda sem þeir hafa unnið saman við í fortíðinni og má þar nefna The Departed, The Aviator og Gangs of New York.
Myndin verður byggð á ævisögu eftir Edmund Morris, The Rise of Theodore Roosevelt og segir frá Roosevelt allt frá unga aldri og þangað til hann varð forseti. DiCaprio er sagður vera það spenntur fyrir hlutverkinu að hann vilji ráðast í það sem allra fyrst.
Áhugi DiCaprio virðist ekki hætta hjá Roosevelt því hann hefur einnig verið orðaður við forsetann Woodrow Wilson og mun sú mynd einfaldlega heita Wilson. DiCaprio er einnig sagður koma að framleiðslu á þeirri mynd og hefur hann verið að færa sig yfir á þá braut meðfram leiklistinni á síðustu misserum.