Strax á eftir hælum Ubisoft og afhjúpun þeirra að eitt stykki Fassbender verði í Assassin’s Creed-mynd, fylgja Eidos-Montreal með þeirri súrsætu tilkynningu að hinn ársgamli Deus Ex: Human Revolution fái sína eigin kvikmyndaaðlögun. Hún er súrsæt vegna þess hve kröftug sagan í leiknum er og á móti lönguninni til að sjá hana spilast út á hvíta tjaldinu, kemur harða krafan fyrir hæfan handritshöfund og útsjónarsaman leikstjóra.
Human Revolution er þriðji leikurinn í virtu Deus Ex-seríunni og á meðan að fáar stórkostlegar sci-fi sögur hafa sprottið upp síðustu 12 ár í kvikmyndaheiminum, hefur kjötuð og safarík goðsagnafræði leikjanna legið ósnert af höndum Hollywood-manna.
Þriðji leikurinn gerist árið 2027, 25 árum fyrir upphaf fyrsta leiksins, og er næsta þróun mannkynsins nýkomin í formi tæknivæddra-útlima. Tæknin er þó enn á lágu stigi og hafa fyrirtækin sem framleiða útlimina fest sig sem ómissandi hluti heimsins, en gríðarleg samkeppni ríkir. Samfélagið hefur í kjölfarið tvístrast á milli þeirra sem telja þetta virkilega vera næsta þróunin, og þeirra sem telja þetta vera ónáttúrulegt og „móðgun við Guð“. Þið sjáið kannski hvar allegorían kemur inn.
Við hjarta leiksins er aðalpersónan Adam Jensen, yfirmaður í öryggismálum hjá Sarif Industries; stærsti framleiðandi útlima. Eftir hræðilega árás sem skilur Jensen eftir nær dauða en lífi, er meirihluti líkama hans tæknivæddur og upphefst leitin að sökudólgunum.
CBS Films mun vinna í samstarfi við Eidos-Montreal að gerð myndarinnar, að sögn meðforseta CBS, Terry Press: „Það þekkir enginn ‘Human Revolution’ eins vel og liðið sem skapaði hann og okkur hlakkar virkilega til að vinna með þeim frá fyrsta degi til að skapa aðlögun sem verðskuldar ‘Deus Ex’-nafnið.“
Það þarf ekki að segja neinum að aðstandendur myndarinnar eru hérna á virkilega hálum ís, en vonandi hjálpar inntaka Eidos að móta verkefnið með réttum höndum og hver veit, ef hún reynist vera góð, taka þeir kannski allan þríleikinn.