Leikstjórinn skemmtilegi Guillermo Del Toro mun að öllum líkindum leikstýra kvikmyndinni Sleepless Knights fyrir Dreamworks kvikmyndaverið. Sleepless Knights fjallar um það hvernig tilraun með tímaflakk misheppnast svo alvarlega, að öll veröldin festist á ákveðnum tímapunkti. Sá tímapunktur er hrekkjavakan Halloween, og þegar draugarnir og verurnar uppgötva hvernig í málunum liggur er allur fjandinn laus. Sá eini sem getur bjargað málunum er ungur drengur, sem ráðinn er til Sleepless Knights reglunnar, sem hefur það verkefni með höndum að taka á málum sem þessum. Handrit myndarinnar er skrifað af engum öðrum en Grant Morrison, en hann er goðsögn í myndasöguheiminum. Meðal þess sem hann hefur skrifað eru hinar martraðakenndu The Invisibles bækur, en undirbúningur á kvikmyndun þeirra er hafinn. Grant Morrison er á leiðinni til landsins, og mun hann halda fyrirlestur á menningarnóttinni þann 17. ágúst næstkomandi. Fyrirlesturinn verður haldinn í Borgarbókasafninu á Tryggvagötu og hefst klukkan 8. Allir eru sterklega hvattir til þess að mæta, því hér er um mikinn snilling að ræða og er hann líklega sá eini sem veit hvað raunverulega er á seyði á bak við tjöldin.

