del Toro hættur við Hobbitann

Kvikmyndaleikstjórinn Guillermo del Toro segir að þær tafir sem hafa orðið á framleiðslu á myndinni um Hobbitann, sem byggð er á sögu J.R.R. Tolkien sem einnig skrifaði Hringadróttinssögu, hefðu orðið til þess að hann hafi orðið að segja sig frá verkefinu. Myndin átti að vera í tveimur hlutum og gerast á undan Hringadróttinssögu þríleiknum, sem Peter Jackson leikstýrði.

„Í ljósi mikilla tafa sem orðið hafa á því að byrja á tökum á myndinni, þá stend ég frammi fyrir erfiðustu ákvörðun lífs míns,“ segir del Toro á Lord of the Rings aðdáendasíðunni á netinu.

„Eftir að hafa verið á kafi í verkefninu í tvö ár, þá verð ég því miður að hætta við þessar dásamlegu myndir,“ sagði hann, og bætti við að framleiðslufyrirtækið, MGM, sem kemur að gerð myndarinnar, og á í miklum fjárhagserfiðleikum, hefur ekki enn gefið grænt ljós á myndina.

Del Toro mun þrátt fyrir þetta aðstoða við að skrifa handritið ásamt Peter Jackson og konu hans, Fran Walsh, og Philippa Boyens.

Jackson náði samningum árið 2007 um að gera tvær myndir um Hobbitann, og hann er framleiðandi myndarinnar ásamt Walsh.

„Við erum búin að hanna allar verurnar, sviðsmyndina og búningana. Við erum búin að plana bardagaatriðin, og erum mjög vel undirbúin,“ sagði Jackson.

Jackson sagði á vefsíðunni www.theOneRing.net: „Við erum mjög leið að þurfa að sjá á eftir Guillermo, en hann hefur haldið okkur upplýstum allan tímann og skiljum vel að að þetta er útaf skuldbindingum hans við aðrar myndir.“.

„Þetta þýðir í raun að Guillermo fannst hann ekki geta skuldbundið sig til að búa í sex ár í Nýja Sjálandi, til að gera þessar myndir, þegar upprunalega áætlunin var til þriggja ára.“

Jackson segir á vefsíðunni að hann muni ræða við MGM um annan leikstjóra í þessari viku.

ÞB.