Robert De Niro var spurður út í mögulegt framhald Taxi Driver, sem kom út 1976 með honum í aðalhlutverki, í viðtali við The Guardian.
Martin Scorsese leikstýrði myndinni, sem hlaut fjórar tilnefningar til Óskarsins. Paul Schrader skrifaði handritið.
„Ég var með þessa hugmynd í kollinum. Ég talaði við Marty og Paul og við byrjuðum á einhverju. Ég man ekki hvort við lögðum bara línurnar eða skrifuðum handrit. En einhvern veginn var þetta ekki að virka og þetta komst aldrei á flug,“ sagði De Niro.
„En ég væri til í að sjá hvar Travis [Bickle] er staddur í dag. Það var eitthvað við þennan náunga. Öll þessi reiði og firring. Þannig getur borgin leikið mann. Ég meina Marty og ég erum frá New York og meira að segja við upplifum stundum slíka firringu.“