Uppvakningamyndin Dead Snow II – Red vs. Dead, eða Dauður snjór II – Rauðir gegn dauðum, í lauslegri íslenskri þýðingu, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni þekktu Sundance Film Festival í Utah í Bandaríkjunum, 16. – 26. janúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum myndarinnar.
Dead Snow II er meðframleiðsluverkefni Sagafilm og Tappeluft Pictures í Noregi. Myndin var að mestu leyti tekin upp hér á landi síðastliðið sumar. Tökur stóðu yfir í 40 daga og fóru meðal annars fram á Reykjanesi og Eyrarbakka. Um eitt hundrað íslenskir kvikmyndagerðarmenn unnu við gerð myndarinnar og er Dead Snow II eitt stærsta verkefni Sagafilm í 36 ára sögu félagsins, samkvæmt tilkynningunni.
,,Það er mikil viðurkenning og heiður í því að myndin sé frumsýnd á jafn mikilvægum vettvangi, en Sundance hátíðin er ein af fimm stærstu kvikmyndahátíðum í heiminum”, segir Ragnar Agnarsson annar meðframleiðanda myndarinnar í tilkynningunni.
Ragnar telur þetta jafnframt staðfestingu á því að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðsla eigi fullt erindi á alþjóðamarkað.
Dead Snow II er framhald af myndinni Dead Snow sem kom út árið 2009. Leikstjóri myndarinnar er Tommy Wirkola (Hansel & Gretel Witch Hunters, Dead Snow). Hann vinnur nú að gerð myndarinnar ,,What happened to Monday” sem leikonan Noomi Rapace leikur í, en hún er best þekkt fyrir leik sinn í The Girl with the Dragon Tattoo þríleiknum.
Dead Snow II Red vs. Dead verður frumsýnd hér á landi í vor.