Þessi fyrirsögn kemur eflaust engum sem á annað borð þekkir nafn Danny Trejo, enda lýsa þessi tvö orð steríótýpu hans upp á hár. En nú er semsagt verið að gera kvikmynd sem ber nafnið Bad Ass, og Trejo leikur aðalhlutverkið. Og þessi mynd er byggð á youtube myndbandi, nánar tiltekið myndabandinu Epic Beard Man, sem varð vinsælt fyrir nokkrum árum og sýndi hvítan eldri mann fyrst rífast við og síðan taka í lurginn á ungum svörtum manni í strætó.
Í Hollywood útgáfu sögunnar hefur þó ýmsu verið breytt, núna er sá skeggjaði (Trejo) að verja eldri mann fyrir árás, og öllum vafa um kynþáttamótíf „hetjunnar“ er eytt með því að hafa óróaseggina (tvo í þetta skiptið) hvíta. Eðlilega dugar eitt rifrildi í strætó ekki fyrir efni í heila Hollywood kvikmynd, svo að skeggjaði maðurinn lendir í fleiri hasaratriðum í þessari útgáfu, þegar hann kemst að því að vinur hans var myrtur og lögreglan er ekkert að gera í málinu. Á meðal þeirra sem flækjast fyrir honum eru Ron Pearlman og Charles S. Sutton. Hér er stiklan.