Leikstjórinn D.J. Caruso lýsti því yfir á Twitter síðu sinni nú fyrir stuttu að hann muni leikstýra myndinni Preacher. Myndin verður byggð á samnefndri myndasögu eftir Garth Ennis, en Preacher er oft talin með betri myndasögum sem gerðar hafa verið.
Sagan er ekki af týpískari taginu en hún fjallar um Jesse Custer, predikara í litlum bæ í Texas. Einn góðan veðurdag er Jesse andsettur af Genesis, afkvæmi engils og djöfuls, og veldur það dauða flestra í bænum. Genesis er hvorki ill né gott afl í eðli sínu, en það eitt er visst að Jesse er orðinn af einni öflugustu veru í heimi. Hann hefur vitaskuld nokkrar spurningar handa Guði sjálfum, sem yfirgaf Himnaríki þegar Genesis fæddist, og ferðast yfir Bandaríkin í leit að Almættinu. Með honum slást í för fyrrverandi kærasta Jesse, Tulip, og írsk vampíra með áfengisvandamál. Leitin verður ekki auðveld, en hinn dularfulli Saint of Killers hundeltir föruneytið.
D.J. Caruso segir á Twitter síðu sinni, „Var að skrifa undir samning til að leikstýra Preacher. Loksins fer ég aftur á myrku hliðina og ég gæti ekki verið spenntari!“. Caruso hefur áður leikstýrt myndum á borð við Disturbia, og gaf nú síðast frá sér I Am Number Four.
– Bjarki Dagur