Breski leikarinn Benedict Cumberbatch er í viðræðum um að leika í nýrri kvikmynd sem gerist í fyrri heimstyrjöldinni.
Myndin yrði byggð á leikritinu Journey’s End, eftir R.C Sherrif, frá árinu 1928. Leikritið fjallar um síðasta ár fyrri heimstyrjaldarinnar. Cumberbatch myndi fara með hlutverk aðalpersónunnar og hetjunar, Captain Stanhope. Í leikritinu er Stanhope föðurímynd undirmanna sinna, en leikritið er einnig ádeila á stríðið í heild sinni.
Leikarinn Tom Hiddleston, sem margir þekkja sem Loka í Thor-myndunum, er einnig í viðræðum við framleiðendur myndarinnar. Samkvæmt tímaritinu Sunday Times þá hefur kvikmyndin verið lengi í bígerð vegna höfundarréttinda sem ná allt til ársins 1928.
Margir þekkja Cumberbatch úr BBC-þáttunum, Sherlock. Leikarinn er þó hvergi óvanur hlutverki stríðsmannsins og lék hann Captain James Nicholls í kvikmynd Steven Spielberg, War Horse, frá árinu 2011. Cumberbatch hefur einnig getið sér gott orð í þáttunum Parade’s End, sem gerist einnig í fyrri heimstyrjöldinni.