Heimildir Variety kvikmyndaritsins herma að The Crown leikarinn Matt Smith, sé genginn til liðs við Star Wars: Episode IX, sem er nú sem stendur í tökum í Bretlandi. Óvíst er hvort að þessi fyrrum Dr. Who leikari verði í liði uppreisnarmanna, eða á „myrku hliðinni“.
Fyrir í leikhópnum er fólk eins og Daisy Ridley, John Boyega, Oscar Isaac og Adam Driver, ásamt nýliðunum Keri Russell, Richard E. Grant, Dominic Monaghan og Naomi Ackie. Billy Dee Williams mætir aftur til leiks eftir langa fjarveru í hlutverki Lando Calrissian, og Carrie heitin Fisher verður Leia Organa prinsessa á ný, en notað verður myndefni sem tekið var upp fyrir Star Wars: The Force Awakens. Fisher lést í desember ár 2016, 60 ára að aldri.
Mark Hamill snýr aftur í hlutverki Loga Geimgengils, og Anthony Daniels mun sömuleiðis verða C-3PO á ný.
J.J. Abrams, sem leikstýrði Star Wars: The Force Awakens, snýr nú aftur í leikstjórastól, eftir að Colin Trevorrow hætti vegna listræns ágreinings.
Matt Smith var tilnefndur til Emmy verðlauna fyrir túlkun sína á Filippusi eiginmanni Elísabetar Englandsdrottningar í The Crown. Næst er hægt að berja Smith augum í Charlie Says, þar sem hann leikur fjöldamorðingjann Charles Manson. Sú mynd verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum nú á sunnudaginn kemur.