Deadline vefsíðan segir frá því að Joe Cornish, leikstjóri Attack the Block, gæti orðið leikstjóri næstu Star Trek myndar, eftir að JJ Abrams gat ekki tekið verkefnið að sér vegna anna á öðrum vettvangi, nánar tiltekið við leikstjórn annarrar stjörnustríðsmyndar, Star Wars 7.
Attack the Block var fyrsta mynd Cornish sem leikstjóra, en hún fjallar um hóp ungra Breta sem tekur til varna þegar geimverur gera árás á hverfið sem þeir búa í.
Í kjölfarið varð Cornish einn handritshöfunda Tinna myndarinnar The Adventures Of Tin Tin, ásamt því sem hann skrifaði ásamt leikstjóranum Edgar Wright handritið að Marvel ofurhetjumyndinni Ant-Man, sem Wright leikstýrir.
Paramount fyrirtækið hyggst hefja tökur á Star Trek 3 næsta sumar.