Contrabandsfrumsýningu flýtt til 13. janúar

Fréttablaðið greindi frá því í gær að kvikmyndaverið Universal hafi ákveðið að færa frumsýningardag Hollywood myndar Baltasars Kormáks kvikmyndaleikstjóra, Contraband , fram til 13. janúar en upphaflega stóð til að myndin yrði frumsýnd um miðjan mars.

„Reglan er yfirleitt sú að ef menn eru hrifnir þá er frumsýningin færð fram. Ef ekki eru myndirnar stundum færðar aftar í dagatalið,“ segir Baltasar í samtali við Fréttablaðið, en þegar blaðið ræddi við hann var hann staddur í London að litgreina filmuna ásamt kvikmyndatökumanninum Barry Ackroyd.

Að sögn leikstjórans er búið að klippa myndina og virðist „klippið“ hafa farið það vel ofan í forsvarsmenn Universal að Contraband hefur verið úthlutað þriggja daga helgi. Hún verður frumsýnd föstudaginn 13. janúar.

Contraband er endurgerð á íslensku kvikmyndinni Reykjavik-Rotterdam sem Óskar Jónasson leikstýrði og var frumsýnd árið 2008. Baltasar lék aðahlutverkið í upprunalegu myndinni. Mark Wahlberg leikur hlutverk Baltasars í nýju myndinni en einnig leika í myndinni þau Kate Beckinsale, Ben Foster, Giovanni Ribisi og J.K Simmons auk Lukas Haas og Diego Luna. Þá leikur Ólafur Darri Ólafsson lítið hlutverk í myndinni.

Lukas Haas og Mark Wahlberg á vörubílspalli í Contraband.

Stikk: