Leikstjórinn Simon West hefur rætt möguleikann á að gera framhald af Nicolas Cage fangahasarnum Con Air, sem á að gerast úti í geimnum!
Total Film vefsíðan segir frá þessu.
Þó að liðin séu heil 17 ár frá því að fyrri myndin var gerð, þá er West enn spenntur fyrir framhaldsmynd, að því gefnu að upp kæmi nógu góð hugmynd.
„Það eru alltaf einhverjar sögusagnir í gangi um Con Air 2,“ segir West. „Ég myndi gera hana ef henni yrði algjörlega snúið á haus. Con Air í geimnum, til dæmis.“
„Það yrði útgáfa þar sem þeir eru allir orðnir vélmenni, eða að fangarnir eru gerðir að ofurföngum, eða að góðu gæjarnir eru orðnir vondu gæjarnir og öfugt. Eitthvað sláandi. Ef að handritið væri gott þá gæti það gengið.“
En nú er spurningin, er honum alvara, eða er þetta bara til að stríða aðdáendum Con Air …