Deadline vefsíðan segir frá því í dag að kvikmyndaleikarinn Colin Farrell eigi í alvarlegum viðræðum um að leika hlutverk í næstu seríu af glæpaþáttunum vinsælu True Detective, en þeir Woody Harrelson og Matthew McConaughey léku aðalhlutverkin í fyrstu seríunni.
Samkvæmt vefsíðunni þá hafa yfirmenn hjá HBO sjónvarpsstöðinni látið hafa eftir sér að tilkynning um ráðningu leikara væri að vænta fljótlega. True Detective fékk fjölda tilnefninga til Emmy verðlauna þegar tilnefningar voru tilkynntar í vikunni.
Farrell er fæddur á Írlandi og hefur leikið í myndum eins og Phone Booth, Horrible Bosses og Miami Vice.
The Wrap kvikmyndasíðan var einnig með fréttir af ráðningarmálum fyrir þættina í dag, og hjá þeim er sagt frá því að Taylor Kitsch eigi einnig í viðræðum við framleiðendur þáttanna en hann er þekktur fyrir leik sinn í myndunum Lone Survivor og The Normal Heart.