Kvikmyndahátíðin í Feneyjum hefst á morgun með sýningu pólitísku dramamyndarinnar The Ides of March, með George Clooney í aðalhlutverkinu.
Kvikmyndahátíðin í Feneyjum er elsta kvikmyndahátíð í heimi, og samkvæmt frétt Reuters er fjöldinn allur af góðum myndum í boði og á hátíðina mætir fræga fólkið í löngum röðum.
Stjórnandi hátíðarinnar Marco Mueller hlakkar til að sýna gestum dagskrá sem er fullfær um að keppa við kvikmyndahátíðina í Toronto, en hátíðirnar tvær skarast í nokkra daga tímalega séð.
„Þetta er dagskrá sem sýnir hve mikinn stuðning við fáum frá listamönnunum, kvikmyndagerðarmönnunum… og hún sannar að Feneyjar eru alvöru sýningarvettvangur fyrir kvikmyndirnar,“ sagði Mueller í samtali við Reuters.
Ásamt Clooney mæta þeir á svæðið á morgun, meðleikarar hans í myndinni hans, Ryan Gosling og Philip Seymour Hoffman. Síðar koma þau Colin Firth, Keira Knightley, Matthew McConaughey, Kate Winslet, Matt Damon, Jude Law, Gwyneth Paltrow og Madonna á svæðið.
22 myndir keppa í aðalkeppni hátíðarinnar, en hátíðin er að vonast eftir að einhver mynd eigi eftir að slá í gegn og fara alla leið í Óskarsverðlaunin, eins og The Hurt Locker gerði árið 2008, en hún var frumsýnd í Feneyjum og vann svo sex Óskarsverðlaun um veturinn.
Á meðal þeirra titla sem mestur spenningur er fyrir eru Tinker, Tailor, Soldier, Spy sem er kvikmyndagerð á njósnasögu rithöfundarins John Le Carre en þar leikur Óskarsverðlaunahafinn Colin Firth ásamt þeim Gary Oldman og John Hurt.
Aðrar myndir í aðalkeppninni eru mynd Bretans Andrea Arnold, Wuthering Heights, eftir sögu Emily Bronte, mynd bandaríska kvikmyndaleikstjórans Ami Canaan Mann, Texas Killing Fields, og Killer Joe eftir William Friedkin.
Þá má nefna mynd David Cronenbergs, A Dangerous Method, en myndin fjallar um átök
geðlæknisins Carl Jung og sálfræðingsins Sigmund Freud þegar ung kona kemst upp á milli þeirra.
Þá verður Carnage, eftir Roman Polanski, með Kate Winslet sýnd á hátíðinni, en Jodie Foster og Christoph Waltz, leika einnig í myndinni. Polanski skrifaði handrit myndarinnar þegar hann var í stofufangelsi í Sviss.
Polanski kemur ekki á hátíðina, enda á hann á hættu að vera framseldur til Bandaríkjanna, fyrir að flýja undan réttvísinni eftir að hann var handtekinn fyrir að hafa samræði þar við 13 ára gamla stúlku árið 1977.
Rússneski leikstjórinn Alexander Sokurov frumsýnir Faust á hátíðinni og Johnnie frá Hong Kong kemur með mynd sína Life Without Principle, sem fjallar um efnahagshrunið og áhrif þess á venjulegt fólk.
Mynd Madonnu, W.E., verður sýnd á hátíðinni, en keppir ekki í aðalkeppninni. Þetta er drama sem er lauslega byggt á lífi Wallis Simpson en samband hennar við Eðvarð Bretakonung áttunda, leiddi til þess að hann sagði af sér embætti árið 1936.
Egypska heimildamyndin Tahrir 2011 fjallar um byltinguna í Egyptalandi. Philippe Faucon fjallar um róttæka hlið islamstrúar í La Desintegration og Al Pacino leikur sjálfan sig og Herod kóng í Wilde Salome.
Síðast en ekki síst verður mynd Steven Soderbergh, Contagion, frumsýnd en myndin fjallar um lífshættulegan vírus sem veldur skelfingu.